Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Brælutíð

Súgfirskir bátar liggja í höfn eins og flestir smábátar á Vestfjörðum en brælutíð er framundanSn14 í kortunum ef marka má spá Veðurstofu Íslands. Nokkuð hefur snjóað í Súgandafirði og skafið í skafla í húsgörðum og þröngum götum. Mokstur gengur vel á eyrinni og atvinnulífið gengur sinn vana gang en brælan hamlar sjósókn. Búist er við áframhaldandi hvassri NA-átt næstu daga með snjókomu af og til.

Gestur Kristins ÍS fór á sjó sl sunnudag og var þá eini báturinn héðan á sjó. Aflinn var um 3,4 tonn á 32 bala. Gestur fór einnig á sjó á mánudaginn og aflaði vel á áttunda tonnið af ýsu og þorski sem er góður afli. Aðrir bátar voru í landi. Bátar Íslandssögu beita smokkfiski og pokabeitu til helminga. Steinbíturinn sem veiðst hefur sl vikur hefur verið frekar horaður en er allur að koma til.

Kveðja

Róbert Schmidt
Ljósm: R.Schmidt


Fékk 23 kg lúðu á línu

Ekki er óalgengt að línubátar fái vænar lúður á krókana hér á Vestfjarðarmiðum yfir vetrarmánuðina.Luda 23 kg Síðustu áratugina hafa sjómenn innbyrt stórlúður, ýmist á línu eða handfæri og einnig á sjóstöng eins og dæmin sanna. Sigurður Oddsson á Lukku ÍS 357 frá Suðureyri hefur verið seigur að setja í stórlúður undanfarin ár en í fyrra náði hann 88 kg lúðu sem var mikill happafengur. Fyrir fáeinum dögum fékk Siggi 23 kg lúðu á línu sem hann beitti sérstaklega fyrir hlýra. Línubáturinn Hrönn ÍS frá Suðureyri fékk eina 15 kg lúðu fyrir nokkrum vikum síðan og heyrst hefur að bátar frá Flateyri hafi líka verið að setja í eina og eina ágæta lúðu.

Stórlúður eru á djúpmiðum yfir vetrarmánuðina en færa sig svo nær landgrunninum í maímánuði og eru við ströndina fram eftir sumri. Sjóstangaveiðimenn bíða spenntir eftir vorinu með stórlúðuglampann í augunum en allir þeir sem kaupa sér ferð til Vestfjarða á sjóstöng lifa í voninni um að setja í stórlúðu.

Meðfylgjandi myndir tók undirritaður þegar verið var að landa úr Lukku ÍS þegar 23 kg lúðan veiddist.

Lukka

Kveðja

Róbert Schmidt 


Vetur á Suðureyri

Tíðarfarið hér á Suðureyri hefur verið með eindæmum gott það sem af er árinu. Lítill sem engin snjórsn11_962070.jpghefur náð festu og um tíma var vor í lofti og engin skildi neitt í neinu á meðan allt var á kafi í snjó í Danmörku og Englandi. En svo fór að snjóa og á einum sólahring breyttist ásýnd þorpsins í vetrarbúning með ófærð og snjóbyl. Súgfirðingar sem og aðrir Vestfirðingar eru vanir miklum snjó og kippa sér lítið upp við það. Bjarni Jóhanns á gröfunni hefur unnið af krafti við að hreinsa götur og vinnusvæði með glans enda vanur ýmsu þegar að snjónum kemur.


Bátarnir hafa róið af og til þegar gefur. Aflabrögðin verið bara fín eða frá 3-7 tonnum á bát. Steinbíturinn er aðeins farinn að láta sjá sig. Prófað var að beita loðnu um sl helgi en það fékkst

s11_962071.jpg

 lítið sem ekkert á þá bala. Vitrir menn segja að loðnan sé mætt í Djúpið og ef að hún leggst hér yfir miðin, þá dregur úr aflabrögðum.

Nokkrir halda í hefðina og flaka fisk á hjall og nýta þá fáu hjalla sem eru á Suðureyri. Það er góður siður sem gott er að viðhalda. Áður fyrr flökuðu menn lúðu á hjall en það er liðin tíð. Nú fá bátarnir lítið sem ekkert af lúðu og þar fyrir utan þykir hún of dýr á hjallinn.


Læt hér fylgja með fáeinar myndir frá síðustu dögum eftir að snjóaði almennilega.

KveðjaRóbert Schmidt
Ljósmyndir: R.Schmidt


Frábært þorrablót hjá konunum

Þorrablót Súgfirðinga var haldið laugardaginn 30. janúar í Félagsheimili Súgfirðinga en um 150Alda manns mættu á blótið. Karlar og konur skiptast á að halda blótin og nú var röðin komin að konunum. Stífar æfingar vikum fyrir blótið skilaði sér heldur betur þegar skemmtidagskráin hófst eftir borðhaldið og er óhætt að fullyrða að betri skemmtun hafi ekki komið frá konunum en nú. Blótsgestir hreinlega öskruðu af hlátri og höfðu gaman af.

Borðhaldið tókst einnig mjög vel. Oddný Schmidt opnaði dagskrána fyrir hönd húsnefndar og Halldóra Hannesdóttir fór fyrir skemmtinefndinni. Anna Bjarnadóttir flutti Mynni Súgandafjarðar, Guðrún Karlsdóttir flutti Mynni Karla og Guðný Helga stjórnaði fjöldasöngnum. Blótsgestir sátu við langborð og hver kom með sitt þorratrog eins og hefð er fyrir hér í Súgandafirði.

Eftir skemmtidagskrá kvöldsins var hafist handa við að raða upp fyrir dansleikinn og á meðan hljómsveitin gerði klárt á sviðinu, stökk Benni úr Víkinni með harmonikkuna á dansgólfið og lék nokkur vel valin lög í upphitun. Hljómsveitin var skipuð þaulvönum köppum frá Bolungarvík og Ísafirði og heppnaðist dansleikurinn svo vel að fullt var á dansgólfinu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Það er mál heimamanna að betra þorrablót hafi ekki verið haldið í Súgandafirði í háa herrans tíð. Sem sagt, frábært þorrablót hjá súgfirsku konunum 2010 og eiga þær hrós skilið.

Ljósmyndir frá þorrablótinu eru að finna á heimasíðunni hans Palla Önundar í myndasafni:
www.pallio.net.

Meðfylgjandi mynd tók Palli einnig.

Kveðja

Róbert Schmidt

Höfundur

Róbert Schmidt
Róbert Schmidt

Fæddur Súgfirðingur og þykir vænt um fjörðinn og fólkið heima. Netfangið mitt er: robert@skopmyndir.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband