10.11.2008 | 18:55
Gölturinn úr hafinu rís
Fjallið Göltur sem stendur í mynni Súgandafjarðar er æði formfagurt og undir klettabeltinu stendur
Galtarbærinn, einmanna og veðurbarinn en með sína löngu sögu. Gölturinn er 445 metrar að hæð og margir Súgfirðingar hafa gengið á hann og uppskorið einstakt útsýni yfir fjörðinn og gjöful fiskimiðin fyrir utan. Meðfylgjandi mynd tók undirritaður 6. nóvember þegar hann rölti til rjúpna á brúnunum fyrir ofan Stað. Það er sagt að Súgfirðingar séu allir sem einn stoltir af Geltinum og ófáir hafa ort um hann ljóð og vísur. Gaman væri að fá frá lesendum slíkt efni hafi þeir það í fórum sínum.
Kveðja
Róbert
robert@skopmyndir.com

Kveðja
Róbert
robert@skopmyndir.com
Flokkur: Bílar og akstur | Facebook
Athugasemdir
GÖLTUR
Göltur úr hafinu gnæfir hátt,
gnípuna ber við loftið blátt,
jafnvæti og tign er í fjallsins fasi,
hér fjarar aldrei í tímans glasi,
Því hamrarnir standast tímans tönn,
sem tinna þeir brjóta af sér klaka og fönn.
Ljóð: Guðmundur Ágústsson.
Sigrún Jónsdóttir, 11.11.2008 kl. 16:32
Takk fyrir þetta Sigrún, flott ljóð. Ég veit að þau eru fleiri til og vonandi fáum við nokkur til viðbótar.
Róbert Schmidt, 11.11.2008 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.