1.5.2009 | 17:24
Harmonikkuspil og hnallþórur
Það var glatt á hjalla á Suðureyri í dag, 1.maí og hátíðarhöld fjölmenn í tilefni dagsins. Að venju var farið í kröfugöngu frá Brekkukoti og að sögn Ævars Einars, þá var kröfugangan vel sótt að þessu sinni. Boðsund var í Sundlaug Suðureyrar og síðan var boðið uppá kaffihlaðborð í verkalýðshúsinu Bjarnarborg um miðjan dag. Báðar hæðirnar voru þétt setnar og veisluborðið svignaði undan kökum og kræsingum. Jóna Margrét Valgeirsdóttir fékk leikskólabörn til að syngja nokkur lög og einnig léku ýmis börn á hljóðfæri við góðar undirtektir gesta.
Árni frá Vöðlum í Önundarfirði mætti með harmonikkuna og spilaði helling af skemmtilegum og hressandi lögum og var mikil stemning í risinu þennan dag. Ævar Einars var sjálfskipaður söngstjóri og náði hann öllum með í fjöldasöng og fór létt með. Síðan mættu strákarnir sem eru að vinna við endurbætur á Súgfirðingasetrinu í kaffi og hvíldu hamra og sleggjur um stund og tóku þátt í hátíðarhöldum bæjarbúa með glöðu geði. Veður var frábært í dag, sólarglenna af og til og hægur vindur. Virkilega skemmtilegur dagur að baki.
Fleiri myndir frá deginum eru að finna í myndaalbúminu á forsíðunni.
Til hamingju með daginn verkafólk.
Kveðja
Róbert
Flokkur: Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 17:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.