20.6.2009 | 12:01
Vogmær í Suðureyrarhöfn
Vogmærin sem stundum er nefnd vogmeri slæðist stöku sinnum í veiðarfæri sjómanna hér við land. Vogmærin kemur við sögu í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Þannig lýsa þeir henni:
Vogmerin er litfögur. Hún er svört fyrir framan augun og á milli þeirra, einnig ofan á höfði og hnakka. Stór kringlóttur, svartur blettur er fyrir ofan raufina og einnig fyrir ofan hryggjarliðina, og svo virðist sem fiskurinn sé svartur í gegn. Bakugginn, stirtlan og sporðurinn er allt hárautt á lit, en að öðru leyti er hún silfurgljáandi. Vogmærin getur orðið nokkuð stór eða um 3 metrar á lengd. Heimkynni hennar eru í Norðaustur-Atlantshafi og hún virðist vera algeng allt í kringum Ísland, nema undan ströndum Norðausturland og Austurlands. Vogmær finnst undan ströndum Noregs, í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og allt suður til Madeira.
Sárafáar rannsóknir hafa verið gerðar á lífsháttum vogmeyjarinnar. Menn telja að hún sé fyrst og fremst miðsævisfiskur og hefur hún komið í veiðarfæri skipa á 64-640 metra dýpi. Vogmeyjar halda sig sennilega í smáum torfum og einstaka sinnum reka slíkar torfur á land. Á ofanverðri 19. öld rak 100-200 vogmeyjar á land við Arnarfjörð.
Fæða vogmeyjarinnar er einkum rækja, smokkfiskar og ýmsar tegundir smáfiska. Ekki er vitað hvenær hún gýtur en nýgotnar hrygnur hefur rekið á land í maílok. Sjómenn hafa fengið vogmeyjur í flotvörpu djúpt undan Reykjanesi og hugsanlegt þykir að þar megi finna væna hrygningarslóð hennar.
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er gerð grein fyrir nafngift fisksins. Þar segir að það sé eðli vogmeyjarinnar að koma með flóðinu upp að landi í grunnum víkum og vogum, sérstaklega þar sem botngerðin er sendin. Hún er svo litfögur og mjúk að hún er kennd við mey.
Ps. þess má geta að stórstreymi er um þessar mundir hér vestra.
Kveðja
Róbert Schmidt
Ljósmyndir: Róbert Schmidt
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2009 | 17:18
Frá Sjómannadeginum
Sunnudagurinn rann upp með þoku og kaldri hafgolu en skemmtidagskráin fór samt fram á hafnarsvæðinu þar sem keppt var í kararóðri, reipitogi, kappbeitingu, brettaboðhlaupi og karaboðhlaupi barna. Verðlaunaafhending fór fram seinni partinn áður en farið var í hópsiglingu með heimabátum Súgfirðinga. Þakka ber sérstaklega Sjómannadagsráði og þeim sem lögðu hönd á skipulagningu helgarinnar sem og sjómönnum sem fóru með gesti í kvöldsiglinguna.
Myndir eru óðum að hlaðast inn á myndaalbúmið.
ATH vinsamlega virðið höfunarrétt ljósmyndara.
Kveðja
Róbert
robert@skopmyndir.com
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2009 | 12:39
Kjartan Þór byrjaður að róa á Rósborgu ÍS
4.6.2009 | 12:10
Sjómannadagurinn á Suðureyri
Laugardagur:
Kl. 14:00 Firmakeppni í knattspyrnu á sparkvellinum við Höfðastíg.
Kl. 16:00 Kappróður í höfninni.
Kl. 17-19 Opið hús hjá Íslandssögu hf. (allir fá þar eitthvað fallegt í það minnsta fisk og fjör)
Kl. 19-21 Fiskismakk fyrir alla í Félagsheimili Súgfirðinga á meðan birgðir og húsrúm duga.
(Kannski verða óvæntar uppákomur t.d. Öskubuskurnar með fallegu norninni gætu flutt Eurovision ballöður- hver veit?)
Kl. 23-03 Alvöru sjómannadansleikur í Félagsheimili Súgfirðinga. Dansskórnir dregnir fram og gamla ballstemningin rifjuð upp með stæl. Gummi Hjalta & Stuðboltarnir halda uppi rífandi stemningu til kl 03. Miðaverð á ballið kr. 1.000
Sunnudagur:
Kl. 13:45 Skrúðganga til kirkju frá Bjarnarborg.
Kl. 14:00 Sjóaramessa í Suðureyrarkirkju.
Kl. 15:00 Skemmtidagskrá á hafnarsvæðinu undir öruggri handleiðslu Sturlu Páls Sturlusonar. M.a. verður keppt í kappbeitingu, reipitogi, kararóðri, brettahlaupi og karaboðhlaupi fyrir yngri kynslóðina.
Kl. 20:00 Kvöldsigling um Vestfjarðarmið og Súgandafjörð. Þeir sem hyggjast stunda strandveiðarnar í sumar eru sérstaklega velkomnir.
Sjómannadagsráð
2.6.2009 | 23:34
Líf og fjör á Sjómannadaginn
Það verður líf og fjör á Sjómannadaginn hér á Suðureyri um næstu helgi en búið er að ráða hljómsveit sem skipuð er Guðmundi Hjaltasyni & co en þeir munu leika fyrir dansi á laugardagskvöldið en á undan verður heljarinnar fiskiveisla í boði Íslandssögu fyrir utan Félagsheimili Súgfirðinga. Heyrst hefur að brottfluttir Súgfirðingar muni fjölmenna vestur um helgina enda hefur Sjómannadagurinn á Suðureyri alltaf verið líflegur og skemmtilegur. Arnar Guðmundsson og róðrasveinar hans náðu kappróðrarbikarnum í fyrra og líklegt er að áhöfn Hrefnu ÍS muni leggja allt í sölurnar til að endurheimta hann á hilluna hans Sigurvins á Hjallaveginum. Ítarleg dagskrá Sjómannadagsins verður sett hér inna skamms.
Kveðja
Róbert
Ljósmyndir: Róbert Schmidt
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2009 | 23:23
Skólabörn hjálpa til við gróðursetningu
Nemendur Grunnskóla Suðureyrar gróðursettu fjöldann allan af plöntum nýverið ásamt kennurum skólans í gróðurreitnum fyrir ofan tjörnina en Arnar Guðmundson stjórnaði verkefninu örugglega eins og alltaf. Bæði drengir og stúlkur lögðu hönd á plóginn og unnu vel þennan morgun þrátt fyrir smávægilega vætu. Að lokinni gróðursetningu var boðið uppá grillaðar pulsur við skólann sem nemendur þáðu með þökkum. Fleiri myndir eru í myndasafni á forsíðunni.
Kveðja
Róbert
Ljósmyndir: Róbert Schmidt
28.5.2009 | 19:08
Siggi á Lukku Ís með 88 kg stórlúðu
Haukalóðirnar leggur hann á ákveðna bletti sem hafa gefið stórlúður og svo er líka gott að prófa nýja staði. Venjulega eru lóðirnar látnar liggja í nokkra daga áður en þær eru dregnar. Beitt er ýsu, smáþorski og ufsa. Stórlúður eru utan kvóta og þess má geta að kílóverð á fiskmörkuðum sl daga og vikur hefur verið frá 500 til 1000 kr en verðið hækkar svo um munar þegar lúðan er komin í verslanir, því samkvæmt heimildum frá Nóatúni er kílóverð á stórlúðu á 2500 kr.
Kveðja
Róbert Schmidt
Ljósmynd: Róbert Schmidt
Bílar og akstur | Breytt 2.6.2009 kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2009 | 18:49
Stefán Már skákaði litla bróður
Hið árlega skólaskákmót var haldið í Grunnskóla Suðureyrar s.l. sunnudag en það var Jóhannes Aðalbjörnsson sem hafði umsjón með skákmótinu. Bræðurnir Daði Freyr og Stefán Már Arnarssynir voru efstir að loknu móti með 6 vinninga hvor og þurfti því aukaskák til að knýja fram úrslit. Stefán og Daði tefldu af miklu öryggi en það mátti greina eitt og eitt bros á milli leikja og greinilegt að þeir tóku skákina alvarlega en samt í léttum dúr.
Að lokum skákaði Stefán Már yngri bróðir sínum og hafði sigur í úrslitaskákinni. Magnús Jónsson skólastjóri afhenti Stefáni bikarinn góða en bikarinn hefur víst verið á heimili þeirra bræðra á Hjallaveginum því elsti bróðir þeirra, Ívar Örn, sigraði 5 sinnum á skólaskákmótum hér á árum áður en Stefán var að sigra bikarinn í 4 sinn, þannig að samanlagt hefur bikarinn góði verið á Hjallaveginum í 9 ár. Svo er spurning hvort Daði Freyr komi ekki inn sterkari að ári og leggi stóra bróður að velli!
Kveðja
Róbert
Ljósmyndir: Róbert Schmidt
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2009 | 18:34
Þóra Þórðardóttir kveður kennslustarfið eftir 47 ár
Grunnskóli Suðureyrar stóð fyrir árlegri skólasýningu s.l. sunnudag þar sem verk nemenda frá liðnum vetri voru sýnd gestum og gangandi. Haldið var skólaskákmót og boðið uppá nýbakaðar vöfflur og drykki. Óðinn Gestsson afhenti, fyrir hönd foreldra og nemenda, Þóru Þórðardóttur blómvönd og gjöf í tilefni þess að Þóra er nú að ljúka 47 ára starfi sem kennari og leiðbeinandi í Súgandafirði. Þóra, sem verður sjötug í ár, hóf kennslu árið 1962 og tók sér síðan 3ja ára barneignarfrí en hélt svo áfram alveg til dagsins í dag. Þóra byrjaði barnakennslu við Grunnskóla Suðureyrar 1981.
Óðinn flutti ávarp og þakkað Þóru fyrir uppbyggjandi og óeigingjarnt starf sem ófáir Súgfirðingar hafa notið í gegnum áratugina. Þóra þakkaði fyrir sig og segist kveðja með söknuði eftir allan þennan skemmtilega tíma sem hún hefur átt með börnunum en þau eru framtíðin og þess vegna þarf að leggja grunninn vel og vandlega fyrir þau og umfram allt að hafa lífið skemmtilegt. Það sem einkenndi kennsluaðferðir Þóru til barnanna var sköpunargleði, sjálfstæði og leikur að sögn Magnúsar Jónssonar skólastjóra sem jafnframt þakkaði Þóru fyrir frábært starf í þágu skólans og nemenda.
Kveðja
Róbert
Ljósmyndir: Róbert Schmidt
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2009 | 21:46
Bobby bátarnir raða inn stórlúðunum
Ljósmynd: Róbert Schmidt
Kveðja
Róbert