Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Gleðilegt ár

Sudureyri.blog vill óska öllum lesendum síðunnar sem og öðrum landsmönnum gleðilegs árs með untitledþökk fyrir árið sem er að líða. Einnig þakka ég góðar viðtökur á blogginu og vonandi verður 2009 enn skemmtilegra og viðburðarríkara en þetta ár, þótt það verði seint toppað.

Hafið það sem allra best og farið gætilega með flugeldana í kvöld. Gætið einnig að hafa ekki áfengi á svölum eða í bakgörðum ykkar þar sem unglingar gætu komist í. Algengt er að áfengi sem fólk er að kæla utandyra sé stolið þegar fólk er í fasta svefni eða á áramótabrennunni.

Gleðilegt ár kæru vinir

Róbert Schmidt


Borðaði villtan íslenskan ref á jólunum

Það er ekki á hverjum degi sem villtur íslenskur fjallarefur er snæddur á Íslandi enda seint talinn Refakjotidhefðbundin íslenskur heimilismatur. Súgfirðingurinn og veiðimaðurinn, Jón Vigfús Guðjónsson, sem býr á Akureyri og starfar sem skipstjóri hjá Brim fiskeldi ehf , tók sig til og eldaði flottan refapottrétt um jólin en það hefur blundað lengi í Jóni að prófa að borða alvöru villtan íslenskan ref.

“Ég bað vin minn Vigni Stefánsson að hafa mig í huga næst þegar hann felldi ref því mig langaði til að smakka hann. En það tók smá tíma að sannfæra hann um að ég væri ekki að grínast. En svo hringdi hann í mig þegar hann hafði fellt ref í Skagafirði og ég skellti mér strax á staðinn og verkaði refinn sem var á fyrsta ári og virkaði heldur rýr aðSvissad graenmeti sjá. Mér fannst ég vera að flá hund svo ég frysti kvikyndið í 10 daga til að safna í mig meiri kjarki til að snæða hann. En svo rann upp góður dagur og ég tálgaði kjötið af ganglimum refsins sem var ekki mikið þegar upp var staðið. Síðan steikti ég kjötið á heitri pönnu, kryddaði með salti og pipar. Svissaði síðan lauk, sveppi og papriku saman við refinn og bjó til villibráðarsósu. Skellti þessu svo öllu út í sósuna og lét malla í 20 mín og úr varð þessi fíni refapottréttur sem smakkaðist mjög vel. Fyrsti bitinn fór frekar hægt upp í munninn því ég vissi ekkert hverju ég átti von á. En viti menn, bragðið minnti einna helst á kindagúllas. Þetta kom mér verulega á óvart og það er óhætt að mæla með íslenska refnum á matarboðið sem kreppusteik,” segir Jón Vigfús. Þrír vinir RefapottretturJóns fengu að smakka á refapottréttinum og líkaði þeim vel.

Jón segist vel vera til í að borða fleiri refi í framtíðinni séu þeir verkaðir strax. “Ef ég myndi bjóða gestum í refasteik, þá þyrfti ég eitt kvikyndi á mann en það fer eftir meðlætinu að sjálfsögðu," sagði Jón að lokum. Nú er það spurningin, skyldi íslenski refurinn vera næsta villibráðin sem boðið verður uppá á fínustu veitingarhúsum landsins?
Jon Vigfus Gudjonsson
Texti: Róbert Schmidt
Ljósmyndir: Jón Vigfús Guðjónsson



Þorrablót Súgfirðingafélagsins 30 janúar 2009

Eins og kemur fram í jólablaði Súgfirðingafélagsins, þá verður þorrablót félagsins haldið föstudaginn þorrablot30. janúar 2009 í Lionssalnum Lundi Auðbrekku 25-27 Kópavogi. Nánari dagskrá verður auglýst þegar nær dregur. Súgfirðingar og aðrir áhugasamir eru beðnir að taka með sér vini og vandamenn. Á síðasta þorrablót félagsins mættu tæplega 170 manns og er búist við svipuðum fjölda nú ef ekki fleiri.

Tilkynninginn er frá Súgfirðingafélaginu í Reykjavík

Jólaball Súgfirðingafélagsins í Smáraskóla í dag

Súgfirðingafélagið í Reykjavík stendur fyrir jólaballi í Smáraskóla kl 13.00 í dag (laugardag) og er jolasveinarvon á fjölda gesta líkt og á síðasta jólaballi en þá mættu vel á annað hundrað manns sem samglöddust og skemmtu sér vel við söng og leik með börnunum. Sameiginlegt hlaðborð verður á staðnum en margir gestir mæta með alls kyns góðgæti á hlaðborðið t.d. smákökur, ávexti ofl. Drykkir verða á staðnum og svo mæta jólasveinarnir að sjálfsögðu á staðinn eldsprækir og hressir. Miðaverð er kr 800 fyrir 12 ára og eldri og 500 kr fyrir börn.

Súgfirðingafélagið í Reykjavík

Gleðileg jól Súgfirðingar og aðrir Íslendingar

Ég óska öllum Súgfirðingum og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla og árs og friðar á komandi ári. SugandafjordurKærar þakkir fyrir stundirnar á þessu skemmtilega ári sem er að líða. Tökum vel á móti nýju kreppuári því við komumst vel útúr þessum hremmingum.

Kær kveðja

Róbert Schmidt

Vísur úr skötuveislu súgfirskra karla

Mikið var um vísur sem flugu manna á milli í skötuveislu súgfirskra karla sem haldin var hjá 13Eyþóri Eðvarðssyni nýverið. Látum nokkrar vísur fylgja þessu bloggi með von um að fleiri vísur skili sér hingað. Byrjum á einni góðri vísu frá Sturla Gunnari:

Þó næðir úti nepju hríð
Í norðurljósa skini.
Þá yfir gröf og alla tíð
eigið mig að vini.

Sturla Gunnar Eðvarðsson

Margir skötu míga á
Misjöfn reynast gæðin.
Komi hlandið handan frá
Heldur lengist ævin. 

Útrásarvíkingar í Valhöll stefna
Velta grjóti í landans götu.
Við höfum þó nokkurra að hefna
En höldum okkur við úldna skötu. 

Skítalykt af skötu fer
Skaðlega með nefið.
Borði maður bita er
Burtu farið kvefið.

Karl Steinar Óskarsson


Daunn er yfir desember
drengir hungurmorða.
Súgfirðingar skemmta sér
og kæsta skötu borða. 

Snafsinn teigum skötu með
svo ljúft hún renni niður.
Ég fæ ekki betur séð
en þetta sé frábær siður. 

Ingi Geir með hugmynd þekka
inn í gleðskap fríða.
Ekki bara éta og drekka
heldur einnig kyssa og kveða vísur.

Guðmundur Vignir Friðjónsson


Í skötuveislu til Magnúsar máttum,
og megn var stækjan útum allt.
Eldsúlur loguðu úr öllum gáttum
en úti var snjór og drullukalt.

Stökk á fætur skötukokkur,
með steikarhníf í hendi.
Bálið brann á bakvið okkur,
og bera skalla brenndi.

Magnús minkar eldinn niður,
og muldrar nokkur valin orð.
“Seint verður talinn þjóðlegur siður,
að skaðbrennda skötu bera á borð.

Súgfirðingar seint munu gleyma,
stækjunni úr ruslafötunni.
En Eyþór stendur keikur heima
og klikkar ekki á skötunni.

Róbert Schmidt


  

 


Aðventukvöld í Suðureyrarkirkju

Aðventukvöld var haldið í Suðureyrarkirkju þriðja sunnudag í aðventu 14. desember sl. Halldóra 1Hannesdóttir sendi mér nokkrar myndir frá þessu kvöldi. Fermingarbörn báru ljósið í bæinn og lásu jólaguðspjallið. Kirkjukór Þingeyrar flutti nokkur lög undir stjórn Kristu Sildoja. Katla Vigdís Vernharðsdóttir lék á orgel "Óðurinn til gleðinnar" og Hólmfríður María Bjarnardóttir lék á sópranblokkflautu með Veru Óðinsdóttur, þverflauta og Jóhann Alexander á gítar í laginu Last Christmas.

Yngri börnin sungu við undirleik Bryndísar Gunnarsdóttur lögin; Bjart er yfir Betlehem og Skín í rauðar skotthúfur við undirleik Andra Más Skjaldarsonar á blokkflautu. Einnig fluttu þeir bræðurnir Daníel Snær og Jóhann Alexander Viðarssynir á gítar lagið Ég fæ 3jólagjöf. Flaututríó Suðureyrar (Hólmfríður María Bjarnardóttir, sópranblokkflauta, Vera Óðinsdóttir, þverflauta, Leslaw Szyszko, sópran-, alt- og tenórblokkflauta) lögin; Jólasveinninn minn, Little Blues og Þá nýfæddur Jesúm. Síðan var flutt jólasaga, bæn og blessun.

Sérstakar þakkir til kirkjukórs Þingeyrar, Tónlistarskóla Ísafjarðar, Sr, Guðrúnar Eddu Gunnarsdóttur og Bryndís Gunnarsdóttur organista og til þeirra sem gerðu stundina minnistæða.

Ljósmyndir: Halldóra Hannesdóttir.
6754

Skötuveisla hjá Valla á Suðureyri

Valgeir Hallbjörnsson, sjómaður á Suðureyri bauð til skötuveislu í nóvember í húsnæði sínu sem Valli sh stendur við áhaldahúsið. Þeir sem mættu tóku vel á skötunni en þarna voru t.d. Einar Guðna, Ævar og Guðni Einars, Óðinn Gestsson, Sigrún Sigurgeirs, Vala Hallbjörns, Valli sjálfur, Valur Valgeirs, Sæmundur Þórðar, Ingólfur Þorleifs ofl mætir gestir. Ingólfur Þorleifsson tók nokkrar myndir í veislunni sem hægt er að sjá á síðunni hans http://album.123.is/?aid=126071

Læt hér fylgja með mynd sem ég tók af Valla í sumar þegar hann var að hengja upp rauðmaga.

Kveðja

Róbert

Frábær skötuveisla

Skötuveislan hjá Eyþóri Eðvarðs á Álftanesinu heppnaðist frábærlega en alls mættu 20 sprækir 4súgfirskir karlmenn sem tóku hressilega til matar. MERLO, fyrirtæki Magnúsar Erlingssonar gaf skötuna í veisluna en skatan kom frá Jóa Bjarna á Suðureyri. Einnig var boðið uppá saltfisk fyrir þá sem ekki eru enn búnir að læra skötuát. Farið var með vísur í tilefni dagsins og menn kepptust við að skjóta á hvern annan í bundnu máli en Sturla Eðvarðs sló í gegn með sínum snilldar kveðskap. Sögur að vestan voru líka rifjaðar upp og mikið hlegið og skálað.

Myndasýningu var síðan skellt á stofuvegginn þar sem farið var yfir síðustu karlaveislur hér á höfuðborgarsvæðinu. Boðið var uppá beykireykt hreindýrakjöt, heitreyktan svartfugl og reyktar heiðagæsabringur með 39melónu og róspiparsósu og var það allt étið upp til agna eins og búist var við. Benni Bjarna kíkti í heimsókn og Kitti Kalli kom og smalaði nokkrum ballþyrstum köllum í leigubílinn sinn og skutlað þeim á Players.

Ég setti inn 57 myndir í sérstakt myndaalbúm á síðunni.
Njótið vel.

Kveðja

Róbert

Stefnir United með skötuveislu

Í kvöld munu 20 eldhressir karlar úr "Stefni United" hittast til að snæða kæsta skötu að IMG_0940vestfirskum sið. Síðasta skötuveisla var haldin hjá Magnúsi Friðjónssyni en þá mættu 10-12 manns og var kátt á hjalla, sungið, sagðar sögur og gamanvísur. Svo vel tókst til í eldhúsinu hjá Magga að það blossaði upp eldur á eldavélinni sem var slökktur í snatri af mikilli fagkunnáttu húsráðanda.

Upphaflega hófst þessu matarveisla fyrir nokkrum árum þegar Stefnismenn á höfuðborgarsvæðinu spiluðu fótbolta vikulega í Valsheimilinu. Var það Magnús Erlingsson sem tók að sér fyrstu veisluna, síðan kom Robbi Schmidt og þar á eftir Björn Guðbjörns og síðast Maggi Friðjóns. Eyþór Eðvarðs er nú gestgjafinn og stefnir í met-mætingu eða 20 manns. Eyþór en einn af fáum úr hópnum sem enn spilar fótbolta í viku hverri í Garðabæ og því er skorað á sem flesta að mæta í boltann og rifja upp gamla Stefnis-takta. En það verður tekið hressilega á skötunni í kvöld og eins og sönnum Súgfirðingum sæmir, þá verða fluttar margar vísur í tilefni dagsins, sungið og rifjaðar upp sögur. Einnig verður myndasýning úr síðustu veislum eftir matinn og boðið uppá villibráðar-bakka.

Myndir og frásögn frá skötuveislunni verður sett hér á síðuna um helgina þ.e.a.s. ef veislunni lýkur snemma Cool

Læt hér fylgja eina stutta og hnitmiðaða vísu sem kom frá Birni Guðbjörns:

Bíta beit,
hef bitið í skötuna.
Skíta skeit,
hef skitið í fötuna. 

Róbert

Næsta síða »

Höfundur

Róbert Schmidt
Róbert Schmidt

Fæddur Súgfirðingur og þykir vænt um fjörðinn og fólkið heima. Netfangið mitt er: robert@skopmyndir.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband