Leita í fréttum mbl.is

Landgangslaus flotbryggja

Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd er ógengt út á flotbryggjuna í smábátahöfninni á SuðureyriLandgangurinn en landgangurinn fór enn eina ferðina í sjóinn í síðasta óveðri. Landgangurinn laskaðist talsvert og er væntanlega í viðgerð á Ísafirði um þessar mundir. Margir hafa nefnt að of stórir bátar séu bundnir við flotbryggjuna og í óveðrum fer bryggjan á mikla hreyfingu sem veldur því að landgangurinn fellur í sjóinn. Heimamenn kippa sér lítið upp við þessa sjón enda gerist þetta iðulega þegar hvessir vel í firðinum.

Kveðja

Róbert Schmidt
Ljósm: R.Schmidt

Hákarlaskurður í snjóskafli

Fyrr í vikunni var hér greint frá vænum hákarli sem Sigurður Oddsson á Lukku ÍS 357 frá SuðureyriHK8 fékk á línu í Nesdýpinu. Hákarlinn vó rétt um 700 kg að þyngd og mældist 470 sm að lengd. Ævar Einarsson, útgerðarstjóri Íslandssögu og Valgeir Hallbjörnsson tóku fegins hendi við kvikindinu enda sjaldgæft núorðið að "ódrættir" komi að landi í Súgandafirði. Fiskisagan var ekki lengi að fréttast um þorpið. Börn og fullorðnir mættu á svæðið þar sem þeir Ævar og Valli slægðu hákarlinn ofaní fiskikar og lifrin flæddi um allt ásamt þorski og steinbít sem hákarlinn hafði étið af línunni hans Sigga Odds. Síðan var hausinn skorin af og skrokkurinn lagður í næsta snjóskafl.  

Ævar stálaði hnífinn sinn, skellti sér á skeljarnar og hóf hákarlaskurðinn af miklum móð þar sem hann lá í skaflinum. Þunnildin voru fyrst skorin af, síðanHK13 uggarnir og sporðurinn. Þar næst var hann skorinn endilangt í tvo hluta og síðan í væna bita sem Valli setti í kar. Örlygur Ásbjörnsson eða Ölli, fylgdist með en hann og Leifi Noggi heitinn, skáru marga hákarla saman hér á árum áður og það mátti sjá glampann í augunum hans Ölla þar sem hann studdi sig við stafinn sinn og upplifði á ný þessa ævifornu verkunaraðferð Íslendinga. Ævar hafði greinilega fylgst með Leifa frænda sínum við hákarlaskurðinn og skar kvikindið fumlaust með beittum hnífnum.

Hákarlsbitarnir voru síðan vigtaðir, skolaðir og settir í fiskikar. Þeir vógu um 310 kg samtals. Síðan var sett þungt hlass ofaná bitana til að ná sem mestum vökva úr kjötinu og einnig til kæsingar. Verkunartíminn erHK5 framleiðsluleyndarmál eins og gefur að skilja en búast má við að kæsingin taki fáeina mánuði og síðan eru beiturnar hengdar á hjall í 5-6 mánuði til þurrkunnar. Það ætti því að vera nægur hákarl í boði fyrir næsta þorrablót frá þeim Ævari og Valla. Við skulum til gamans kíkja á smá fróðleikskorn um hákarla og verkun þeirra.

Hákarlategundir í íslenskri lögsögu eru 13 talsins en fjölmargar aðrar tegundir hafa þvælst hér um og ratað í veiðarfæri sjómanna eða rekið á land. Algengasta tegundin hér við land getur verið meira en 7 metrar að lengd og á annað tonn að þyngd, þó að þeir verði oftast 2-5 metrar. Þetta er eina háfiskategundin sem lifir í ísköldum sjó. Áður fyrr voru hákarlar mikið veiddir en veiðar hafa dregist verulega saman. Talið er að hákarlar hafaHK6 verið til í sinni mynd í 300 ár.

Skömmu eftir að hákarl er drepinn tekur þvagefnið að brotna niður og eitt af myndefnum þess er ammoníak. Það flæðir um allt hold dýrsins og styrkur þess getur verið svo mikill að sá sem neytir þess getur fengið eitrun og jafnvel dáið. Dæmi eru um að ísbirnir hafi étið hræ af grænlandshákarli og orðið skammlífir eftir árið. Erlendis eru hákarlar blóðgaðir strax eftir að þeir eru drepnir og síðan kældir. Við blóðgunina næst þvagefnaríkt blóðið úr dýrinu og þá er hægt að neyta kjötsins án þess að finna keim af ammoníaki.

Á Íslandi hefur svonefnd kæsing verið notuð frá alda öðli til að losna við eitrunaráhrif ammoníaks. Hún felst í því að hákarlinn er látinn gerjast í 1-3 mánuði í moldar- eða malargryfju og síðan þurrkaður. Gerjunin brýtur niður köfnunarefnissambönd í vöðvum dýrsins. Hákarlakjöt er borðað víða um heim og veiðimenn sækjast aðallega eftir minni tegundum (undir 25 kg) en hold þeirra þykir ljúffengara en hold stóru hákarlanna, þó undantekningar séu frá þeirri reglu.

HK2

Ljósmyndir: Róbert Schmidt
Heimildir: Vísindavefurinn, Doktor.is og Skutull.is

Kveðja

Róbert Schmidt


 HK1


Fékk 700 kg hákarl á línu

Enn og aftur kemur Sigurður Oddsson á Lukku ÍS 357, frá Suðureyri, að landi með "happadrátt" en íH4 dag landaði Siggi tæplega 700 kg hákarli sem hafði flækt sig í línunni vestur í Nesdýpi á 52 faðma dýpi. "Ég var búinn að fá helvíti gott á þennan bala eða um 300 kg og svo í restina sé ég að þarna er hákarl á línunni. Þannig að það má segja að ég hafi fengið 1000 kg á balann," sagði Siggi ánægður með daginn. Óhætt er að segja að meiri afli hefur varla fengist á einn línubala hér vestra fyrr né síðar.

Hákarlinn mældist 470 sm að lengd og ummálið var hvorki meira né minna en 230 sm. Þetta er stærsti hákarl sem Siggi hefur veitt en í janúar kom hann að landi með 340 kg hákarl. Hákarlinn verður skorinn og verkaður á næstu dögum og verður tilbúinn fyrir næsta þorrablót að ári.

Mikil stemning var á höfninni þegar hákarlinum var landað en honum var slefað í land enda vonlaust að koma 700 kg flykki um borð í eins lítinn bát og Lukka er. Siggi veiddi tvær stórlúður á haukalóð í fyrra, 88 kg og 34 kg. Í ár er hann búinn að fá eina 24 kg lúðu og 700 kg hákarl.

Meðfylgjandi myndir tók undirritaður þegar hákarlinum var landað á Suðureyrarhöfn í dag. H2

Kveðja

Róbert Schmidt

Sumarhús Hvíldarkletts til leigu um páskana

Sjóstangaveiðifyrirtækið Hvíldarklettur hefur ákveðið að bjóða sumarhúsin sín til leigu yfir páskana.Hus 600 Um er að ræða 9 kanadísk sumarhús á Flateyri og 3 sams konar hús á Suðureyri. Einnig er möguleiki á að fá leigð nokkur hús til viðbótar á Suðureyri.

Útleigan á húsunum miðast við 3 nætur.
1-2 manns í 3 nætur kr. 30.000
10.000 kr bætast síðan við hvern mann í gistingu. Sumarhúsin eru öll með 3 herbergi (fyrir 5 manns samt), baðherbergi, stofu og eldhúsi. Húsin eru fullbúin húsgögnum. Ath sjónvarp fylgir ekki.

Nánari uppl gefur Jón Svanberg í síma 894-8836 jon.svanberg@hvildarklettur.is og Róbert Schmidt í síma 8404022 robert@hvildarklettur.is

Á eftirfarandi tengli er hægt að sjá fleiri myndir af húsunum sem og innimyndir.
http://sudureyri.blog.is/album/sumarhus_hvildarkletts/

Kveðja

Róbert


Pálmi Gests og Elva Ósk á leið til Suðureyrar

Tökur á myndinni Vaxandi tungl hefjast seinni hluta marsmánaðar á Suðureyri og fer Pálmi GestssonPalmi leikari og Bolvíkingur með aðalhlutverkið. Einnig mætir leikkonan Elva Ósk á eyrina ásamt fríðu föruneyti. Myndin er eftir Lýð Árnason lækni. Framleiðendur eru; Í einni sæng, Íslandssaga á Suðureyri og Sigurður Ólafsson. Búast má við að tökur standi yfir í nokkrar vikur.

"Vaxandi tungl fjallar um aldraða konu sem deyr í litlu sjávarþorpi. Eldri sonur hennar býr á staðnum ásamt fjölskyldu, en yngri sonurinn býr í Reykjavík með konu sinni. Lát gömlu konunnar vekur átök á milli bræðranna. Óvænt þungun flækir málin enn frekar. Kemur þá til skjalanna yngsta dóttirin, augasteinn ömmu sinnar. Hún finnur fyrir nánd gömlu konunnar, afræður að bjóða örlögunum birginn og berjast fyrir sínu," segir á heimasíðu Í einni sæng. Nánari upplýsingar eru að finna á eftirfarandi tengli:

http://ontrack.is/vaxanditunglfrettir.htm

Í samtali við Pálma segir hann að þetta sé fyrsta kvikmyndin sem hann leikur í fyrir vestan og það sé tilhlökkunarefni að dvelja þar á meðan á tökunum stendur. "Ég kem til með að keyra á milli og verð í húsinu mínu, Hjara, í Víkinni. Þetta leggst mjög vel í mig og ég hlakka til," segir Pálmi sem leikur aðalhlutverkið í myndinni, bróðurinn Friðbert.

Kveðja

Róbert Schmidt


Leitað að Sæluhelgarlagi 2010

Mansavinir á Suðureyri leita nú eftir Sæluhelgarlaginu 2010 en að vanda gefst fólki kostur á130_879890 að senda inn lög í keppni um lagið sem verður hljóðritað fyrir hina árlegu Sæluhelgarhátíð. Skilyrði eru sem fyrr að lagið má ekki hafa heyrst áður og textinn verður að einhverju leyti að fjalla um Sæluhelgina, Súgandafjörð eða Suðureyri. Lagahöfundar eru beðnir um að senda inn hljóðritaðan disk, í því sem næst endanlegri útgáfu, í lokuðu umslagi merkt með dulnefni en rétt nafn þarf að fylgja með í öðru umslagi ásamt símanúmeri.

Frestur til að skila inn lagi er 19. apríl. Við vonum að Íslendingar taki vel við sér og láti sköpunargleðina ráða ríkjum næstu vikunnar. Tilkynnt verður um sigurlagið á sumardaginn fyrsta.

Væntanlegir keppendur eru beðnir um að senda lögin til Ævars Einarssonar.

Mansavinir
Hlíðarvegi 4
430 Suðureyri

Brælutíð

Súgfirskir bátar liggja í höfn eins og flestir smábátar á Vestfjörðum en brælutíð er framundanSn14 í kortunum ef marka má spá Veðurstofu Íslands. Nokkuð hefur snjóað í Súgandafirði og skafið í skafla í húsgörðum og þröngum götum. Mokstur gengur vel á eyrinni og atvinnulífið gengur sinn vana gang en brælan hamlar sjósókn. Búist er við áframhaldandi hvassri NA-átt næstu daga með snjókomu af og til.

Gestur Kristins ÍS fór á sjó sl sunnudag og var þá eini báturinn héðan á sjó. Aflinn var um 3,4 tonn á 32 bala. Gestur fór einnig á sjó á mánudaginn og aflaði vel á áttunda tonnið af ýsu og þorski sem er góður afli. Aðrir bátar voru í landi. Bátar Íslandssögu beita smokkfiski og pokabeitu til helminga. Steinbíturinn sem veiðst hefur sl vikur hefur verið frekar horaður en er allur að koma til.

Kveðja

Róbert Schmidt
Ljósm: R.Schmidt


Fékk 23 kg lúðu á línu

Ekki er óalgengt að línubátar fái vænar lúður á krókana hér á Vestfjarðarmiðum yfir vetrarmánuðina.Luda 23 kg Síðustu áratugina hafa sjómenn innbyrt stórlúður, ýmist á línu eða handfæri og einnig á sjóstöng eins og dæmin sanna. Sigurður Oddsson á Lukku ÍS 357 frá Suðureyri hefur verið seigur að setja í stórlúður undanfarin ár en í fyrra náði hann 88 kg lúðu sem var mikill happafengur. Fyrir fáeinum dögum fékk Siggi 23 kg lúðu á línu sem hann beitti sérstaklega fyrir hlýra. Línubáturinn Hrönn ÍS frá Suðureyri fékk eina 15 kg lúðu fyrir nokkrum vikum síðan og heyrst hefur að bátar frá Flateyri hafi líka verið að setja í eina og eina ágæta lúðu.

Stórlúður eru á djúpmiðum yfir vetrarmánuðina en færa sig svo nær landgrunninum í maímánuði og eru við ströndina fram eftir sumri. Sjóstangaveiðimenn bíða spenntir eftir vorinu með stórlúðuglampann í augunum en allir þeir sem kaupa sér ferð til Vestfjarða á sjóstöng lifa í voninni um að setja í stórlúðu.

Meðfylgjandi myndir tók undirritaður þegar verið var að landa úr Lukku ÍS þegar 23 kg lúðan veiddist.

Lukka

Kveðja

Róbert Schmidt 


Vetur á Suðureyri

Tíðarfarið hér á Suðureyri hefur verið með eindæmum gott það sem af er árinu. Lítill sem engin snjórsn11_962070.jpghefur náð festu og um tíma var vor í lofti og engin skildi neitt í neinu á meðan allt var á kafi í snjó í Danmörku og Englandi. En svo fór að snjóa og á einum sólahring breyttist ásýnd þorpsins í vetrarbúning með ófærð og snjóbyl. Súgfirðingar sem og aðrir Vestfirðingar eru vanir miklum snjó og kippa sér lítið upp við það. Bjarni Jóhanns á gröfunni hefur unnið af krafti við að hreinsa götur og vinnusvæði með glans enda vanur ýmsu þegar að snjónum kemur.


Bátarnir hafa róið af og til þegar gefur. Aflabrögðin verið bara fín eða frá 3-7 tonnum á bát. Steinbíturinn er aðeins farinn að láta sjá sig. Prófað var að beita loðnu um sl helgi en það fékkst

s11_962071.jpg

 lítið sem ekkert á þá bala. Vitrir menn segja að loðnan sé mætt í Djúpið og ef að hún leggst hér yfir miðin, þá dregur úr aflabrögðum.

Nokkrir halda í hefðina og flaka fisk á hjall og nýta þá fáu hjalla sem eru á Suðureyri. Það er góður siður sem gott er að viðhalda. Áður fyrr flökuðu menn lúðu á hjall en það er liðin tíð. Nú fá bátarnir lítið sem ekkert af lúðu og þar fyrir utan þykir hún of dýr á hjallinn.


Læt hér fylgja með fáeinar myndir frá síðustu dögum eftir að snjóaði almennilega.

KveðjaRóbert Schmidt
Ljósmyndir: R.Schmidt


Frábært þorrablót hjá konunum

Þorrablót Súgfirðinga var haldið laugardaginn 30. janúar í Félagsheimili Súgfirðinga en um 150Alda manns mættu á blótið. Karlar og konur skiptast á að halda blótin og nú var röðin komin að konunum. Stífar æfingar vikum fyrir blótið skilaði sér heldur betur þegar skemmtidagskráin hófst eftir borðhaldið og er óhætt að fullyrða að betri skemmtun hafi ekki komið frá konunum en nú. Blótsgestir hreinlega öskruðu af hlátri og höfðu gaman af.

Borðhaldið tókst einnig mjög vel. Oddný Schmidt opnaði dagskrána fyrir hönd húsnefndar og Halldóra Hannesdóttir fór fyrir skemmtinefndinni. Anna Bjarnadóttir flutti Mynni Súgandafjarðar, Guðrún Karlsdóttir flutti Mynni Karla og Guðný Helga stjórnaði fjöldasöngnum. Blótsgestir sátu við langborð og hver kom með sitt þorratrog eins og hefð er fyrir hér í Súgandafirði.

Eftir skemmtidagskrá kvöldsins var hafist handa við að raða upp fyrir dansleikinn og á meðan hljómsveitin gerði klárt á sviðinu, stökk Benni úr Víkinni með harmonikkuna á dansgólfið og lék nokkur vel valin lög í upphitun. Hljómsveitin var skipuð þaulvönum köppum frá Bolungarvík og Ísafirði og heppnaðist dansleikurinn svo vel að fullt var á dansgólfinu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Það er mál heimamanna að betra þorrablót hafi ekki verið haldið í Súgandafirði í háa herrans tíð. Sem sagt, frábært þorrablót hjá súgfirsku konunum 2010 og eiga þær hrós skilið.

Ljósmyndir frá þorrablótinu eru að finna á heimasíðunni hans Palla Önundar í myndasafni:
www.pallio.net.

Meðfylgjandi mynd tók Palli einnig.

Kveðja

Róbert Schmidt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Róbert Schmidt
Róbert Schmidt

Fæddur Súgfirðingur og þykir vænt um fjörðinn og fólkið heima. Netfangið mitt er: robert@skopmyndir.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband